2020 – ÁRIÐ ÞITT?
Ég skammast mín í hvert skipti sem ég hugsa til baka um allar herferðirnar og auglýsingarnar sem ég tók þátt í að semja og birta hér áður fyrr þar sem lofað var árangri á skömmum tíma í ræktinni. Við vissum, og ég veit enn, hvernig flestum er innanbrjósts á þessum tímamótum þegar glímt er við eftirmála hátíðanna. Við gengum þvi á lagið og samviskubitið eftir sukk og óreglu var óspart notað til að selja fólki gullna kaleikinn, aðgangskort í ræktina sem tryggði undraverðan árangur á skömmum tíma.
Ég biðst afsökunar á að hafa hlaðið í herferð eftir herferð þar sem höfðað var til samviskubits og biðst afsökunar á að hafa beinlínis sagt þér að drulla þér af stað. Auðvitað þarf ákveðna hörku og margir bara komast ekki af stað sjálfir en í dag hvet ég þig frekar til þess að fara af stað á þeim hraða sem þú ræður við.
Staðreyndin er nefnilega sú að þeir sem gera það með látum í janúar eru, samkvæmt tölfræði þeirra sem selja líkamsræktarkort, líklegri til þess að gefast upp fyrr en þeir sem byrja á öðrum tíma árs.
Auðvitað er það að hafa sig af stað eitt mikilvægasta skrefið að stíga en ef þú gerir það á röngum forsendum og gefst upp er ennþá erfiðara að koma sér í gír. Beittu skynsemi, setti þér raunhæf markmið og gefðu þér góðan tíma. En það er í alvörunni ekki eftir neinu að bíða. Gríptu tækifærið og gerðu 2020 að þínu ári, bara gerðu það rétt.
Eitt skaltu samt vita að þótt þú sért skynsemin uppmáluð, hafir skýr markmið, gefir þér tíma og sért klár í þetta, verður þetta erfitt. Það koma augnablik þar sem þú þarft bókstaflega að rífa þig áfram á hárinu í stórhríðarbyl í svartasta helvítis skammdeginu til að koma þér á æfingu. Þú átt eftir að missa móðinn, kalla þetta tilgangslaust og finnast árangurinn standa á sér fyrstu vikurnar. En haltu áfram. Sparkaðu líka í rassinn á þér ef það er ekki nóg að rífa í hárið. Vertu vakandi fyrir skilaboðum líkamans um að eitthvað sé að en virtu að vettugi helvítis vælið í honum.
Svo kemur febrúar. Svefninn er farinn að batna, andlega heilsan skánar, það rofar til og brúnin lyftist. Í mars ferðu að taka eftir örlitlum breytingum á líkamanum svo lengi sem þú hefur vit á að bæta skynsemi við hverja máltíð. Ef þú ferð samviskusamlega eftir leiðbeiningum koma töfrarnir í ljós í apríl. Þér bregður og hugsar: „Ahhh, þetta tekur samt ekki lengri tíma“. Allt í einu ertu léttari á þér, hreyfingin orðin hluti af þínu lífi, æfingarnar eru þinn dýrmætasti tími með sjálfum þér og þú finnur aukinn styrk og hreysti.
Ef þú stendur þig, mætir vel og leggur þig fram strax í janúar verður verður apríl mánuðurinn sem lifir lengst í minningunni um árið þitt – 2020.
Í þynnkunni eftir hátíð sykurs, salts og áfengis, mikinn óreglulegan svefn, auk mikils álags – já og í miðju samviskubiti – er svo algengt að fólk rjúki af stað með látum, eingöngu til þess að detta illa á andlitið um það leiti sem þorrablótin hefjast með sínum siðum og freistingum. Þá dettur inn frestunaráráttan, fólk fer að hugsa um að byrja bara aftur eftir páska, nei bara næsta haust eða hey! – i janúar á næsta ári. Hljómar þetta kunnuglega?
Á áramótum hefst nýtt tímabil. Þau eru hrein byrjun. Þá hentar svo vel að klára yfirstandandi kafla og breyta til hins betra. Lokaðu augunum. Hvernig viltu að þér líði í lok árs? Hvaða árangri viltu hafa náð á árinu? Sjáðu það fyrir þér og settu þér markmið um að komast þangað. Gerðu þér áætlun. Raunhæfa áæltun. Byrjaðu og haltu þínu striki. Ekki láta neitt eða neinn stoppa þig. Taktu ábyrgð á þér og þinni líðan. Komdu þér á áfangastað af því að þig langar þangað, ekki af því að einhver auglýsing ýtti á óþægilega samviskubitstakkann á þér.
Ég vona að þær verði þér hvatning þessar hugleiðingar mínar sem ég bara varð að koma frá mér – samvisku minnar vegna.
Gerðu árið 2020 að þínu.