Er nóg að æfa tvisvar í viku?

 In Heilsa

Það er oft talað um að það þurfi að æfa minnst þrisvar í viku til að ná árangri, fjórum sinnum ef þú ætlar að ná virkilega góðum árangri, enn það er bara ekki satt.

Það skiptir minna máli hvað þú æfir oft í viku heldur miklu frekar hvað þú gerir á æfingunni sem þú ferð á. Ef þú ferð á æfingu og hangir á þrekstiganum í 40mín án þess að púlsinn fari mikið upp og jafnvel þó svo hann geri það þá er sú æfing kannski að brenna einhverjum hitaeiningum og þú svitnar aðeins en það gerist lítið annað. Ef þú aftur á móti ferð á æfingu sem hitar vel upp alla vöðva líkamans, tekur styrktaræfingar og svo í lokin keyrir þú upp púlsinn og þjálfar þolið þitt þá ættu tvær þannig æfingar í viku að gera heilan helling fyrir þig.

Pældu í því ef þú æfir tvisvar í viku í heilt ár þá eru það hundrað og fjórar æfingar á ári. Væri það ekki betra en að ákveða að æfa fjórum sinnum í viku og gefast svo upp eftir tvær vikur.

Við vitum að flestir eru með þétta dagskrá flesta daga og ég sé enga ástæðu til þess að auka á streituna og ætla sér of mikið. Taktu frá tíma tvisvar í viku sem þú getur staðið við, mættu alltaf, láttu þessa tíma hafa forgang og þú munt sjá árangur ef þú æfir vel þessar tvær æfingar. Svo með tímanum þegar þetta er orðið auðvelt þá er hægt að bæta við einni eða tveimur æfingum í viku en það þarf samt ekkert endilega. Vonandi finnst þér bara svo gaman að æfa að þig langar að bæta við æfingum frekar en að finnast þú þurfa þess.

Gerðu bara vel það sem þú gerir, gerðu raunhæfa dagskrá og reyndu að koma hreyfingu inn í hverri viku og þú munt finna mun á þér og já jafnvel þó svo þú hangir á þrekstiganum það er betra en að hanga í sófanum.

Recent Posts

Start typing and press Enter to search