Urluð sumarsturlun

 In Heilsa

Vá hvað var gaman að taka á móti fólkinu mínu sem loksins gat byrjað að hreyfa sig á skipulagðan hátt. Gleðin skein úr andliti allra og þau sammála um að stærsta áskorunin á meðan ekki var hægt að æfa var að hafa ekki leiðbeiningar og fá smá hvatningu.

Á meðan að allt var lokað sendi ég út þrjár æfingar á dag, þrjá daga vikunnar þar sem fólk fylgdist með á netinu. Mikill hugur var í öllum til að byrja með en fljótlega varð fólk þreytt á þessu og undir það síðasta farið að taka göngutúr eða gera eitthvað sem það taldi vera nógu mikil hreyfing. Á sama tíma fór mataræðið alveg úr skorðum hjá mörgum. 

Ganga, hjól og jafnvel skokk gera lítið ef það er ekki gert af fullum krafti. Sorrý, það þarf meira til þess að kroppurinn taki þeim breytingum sem við viljum, styrkist, eflist og vinni á fullum afköstum. En þetta ár. Maður bara krossar sig og signir. Ætlar þetta ár sem allir bundu svo miklar vonir við aldrei að byrja?

Það var beðið eftir janúar með eftirvæntingu en svo mætti hann bara með myrkri, slysum og tómum leiðindum. Það var því ánægjulegt þegar febrúar bankaði upp á, en nei nei, þá var veðrið eins og í helvíti næstum upp á dag. Mars átti þvi klárlega að slá í gegn en það varð VEIRULEGUR skortur á stuði. Apríl var svo bara fokk leiðinlegur.

Nú heyrist mér einhverjir vera bara að spá í að taka því rólega í sumar og byrja að krafti í haust sem er ekkert nema frestunarárátta á lokastigi. Krakkar, í alvöru, hvað ef veiruskrattinn stingur sér niður aftur? Er ekki skynsamlegra að rífa þetta af stað, kýla árið í gang og byrja á þvi sem löngu er tímabært eða taka upp lóðið þar sem frá var horfið?

Styrkjum skrokkinn, aukum úthald og auðveldum líkamanum að framkalla vellíðan. Það er ekki eftir neinu að bíða. Tökum okkur saman í andlitinu, setjum allt í botn og njótum þess að hreyfa okkur í sumar á meðan það er hægt. Komum svo sjúklega peppuð út úr sumrinu og hlæjum í andlitið á haustlægðunum.

Recent Posts

Start typing and press Enter to search